Upplestur, Sigga Soffía, hönnuður bleiku slaufunnar
Sigga Soffía, hönnuður bleiku slaufunnar og ljóðskáld, mun flytja ljóð í verslun Pennans Eymundson á Akureyri í tilefni Bleiku slaufunnar, laugardaginn 12. október kl. 12:00.
Þetta er einstakt tækifæri til að heyra frá hönnun slaufunnar og flutning úr ljóðabókinni Til hamingju með að vera mannleg sem kom út í fyrra. Hægt verður að fá áritaða bók, spjalla við höfundinn og versla Bleikar vörur.
Sigga Soffía er danshöfundur í grunninn og þekktust fyrir flugeldasýningar og blómlistaverk en hún hannar undir nafninu Eldblóm. Hún er fjölhæfur listamaður og líkt og klifurplantan sem teygir anga sína víða teygir hönnun hennar sig allt frá dansi yfir í vöruhönnun með anga yfir í mat, flugeldasýningar, ljóðlist og nú skartgripi.
Verkefnið hefur persónulega þýðingu fyrir hana, en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2020 og þurfti að fara í lyfja- og geislameðferð og aðgerð og hefur því miklar og sterkar tilfinningar tengdar þessu verkefni. „Ég þekki af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa baklandið og félag eins og Krabbameinsfélagið til styðja við mann í ferlinu öllu og ekki síður eftir að meðferð lýkur. Félagið gaf mér leiðarvísi í þeim nýja veruleika sem ég þurfti að fást við. Mér fannst mér bera skylda til að bera þennan boðskap áfram og þakka fyrir þann mikilvæga stuðning sem ég hef fengið“.
Kaupum Bleiku slaufuna
Bleika slaufan verður í sölu frá 1. til 25. október í vefverslun Krabbameinsfélagsins og hjá hátt í 400 söluaðilum um land allt.
Allur ágóði af sölu Bleiku slaufunnar rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa af og bæta lífsgæði þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Bleika slaufan er ein af lykilstoðunum í starfsemi félagsins.