Ráðgjöf og stuðningur
Við erum til staðar fyrir þig
Ráðgjöf og stuðningur er öllum að kostnaðarlausu, við leggjum áherslu á stuttan biðtíma og gerum okkar besta til þess að svara erindum fljótt og örugglega. Hægt er að panta tíma hjá ráðgjafa í síma 461-1470, með því að ýta hér eða líta við í þjónustumiðstöð félagsins, Glerárgötu 34 - 2 hæð.
Hverjir eiga kost á því að fá ráðgjöf?
Allir þeir sem á einhvern hátt hafa orðið fyrir áhrifum krabbameina geta leitað til félagsins eftir ráðgjöf. Það á við um fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra, heilbrigðisstarfsfólk, kennara eða aðra sem sinna krabbameinsveikum og/eða aðstandendum. Við hvetjum þig til þess að slá á þráðinn eða líta við til að kanna hvað við getum gert fyrir þig og þína.
Ég var að greinast/hef greinstmeð krabbamein
Það er eðlilegt að það vakni upp fjöldi spurninga, nýjar tilfinningar, ótti og óöryggi við það að greinast með krabbamein. Markmið Ráðgjafarþjónustunnar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu eftir þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Hjá Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á fræðslu, viðtöl, faglega ráðgjöf, djúpslökun, ýmis námskeið og hagnýtar upplýsingar um réttindi fólks með krabbamein.
Hjón eða pör
Þegar aðili greinist með krabbamein getur það haft áhrif á sambönd og samskipti hjóna eða para. Verkaskipting riðlast oft til og ný verkefni bætast við, kynlíf og nánd getur verið erfiðleikum bundið, fjármál heimilisins í óvissu auk þess sem margskonar tilfinningar vakna. Hjón og pör sem koma í viðtal fá aðstoð við að styrkja samtal og skilning sín á milli.
Aðstandendur
Hverjir eru aðstandendur? Allir þeir sem standa nærri einstakling sem greinst hefur með krabbamein. Þegar einhver sem þér þykir vænt um greinist með lífsógnandi sjúkdóm á borð við krabbamein þá getur það verið áfall fyrir þig. Ef þú upplifir að þér vanti svör við einhverjum spurningum eða stuðning til að takast á við þína líðan og þær breytingar sem hafa orðið á þínu lífi þegar einhver þér nákomin greindist með krabbamein, vertu þá velkomin til okkar.
Sorg og missir
Sorgin er eðlilegur hluti af lífinu, en getur jafnframt verið erfið og þungbær. Sorgin hefur engin tímamörk og getur komið okkur að óvörum, jafnvel löngu eftir að ástvinur fellur frá. Við bjóðum þeim sem misst hafa ástvin af völdum krabbameins að leita til félagsins eftir stuðning hjá ráðgjafa.
Fræðsla
Við bjóðum upp á fjölbreytta fræðslu tengda krabbameinum eða sérútbúna fræðslu fyrir ákveðna hópa. Dæmi um fræðslur: Karlar og krabbamein, Konur og krabbamein, Börn sem aðstandendur, Krabbamein á vinnustað og Sorgin. Það hafa ýmsir hópar fengið fræðslu svo sem nemendur á framhaldskólastigi, kennarar, vinnustaðir og hin ýmsu karla- og kvenfélög.