Takk fyrir okkur!
Nú á síðasta degi marsmánaðar líkur árvekniátakinu Hrúturinn formlega. Það er gefandi að líta til baka og fara yfir það sem áorkaðist, enda dagskráin fjölbreytt.
Líkt og fram kom í fréttatilkynningu fyrr í mánuðinum var vel mætt á aðalviðburð átaksins, málþingið Karlar og krabbamein, en alls hlýddu um 200 manns á fróðleg erindi í Hofi. Í framhaldinu var kótilettukvöld á Eyrinni og rann ágóði af seldum miðum til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Uppselt var á viðburðinn, en 70 manns gæddu sér á úrvals kótilettum og meðlæti. Veislustjórn var í höndum vandræðaskáldsins Vilhjálms Bragasonar sem stýrði jafnframt uppboði á varningi sem félagið fékk að gjöf frá fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu. Það var mál manna að vel hafi heppnast til og alls safnaðist ríflega hálf milljón króna um kvöldið.
Í ár lagði Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis áherslu á að finna nýjar leiðir til að ná til karlmanna, kynna þjónustu félagsins og miðla fræðslu um málefnið í tengslum við Hrútinn. Félagið fjárfesti í kennslutæki í formi gervipungs með meinum í, sem gefur karlmönnun kost á að æfa sig í að þreifa og finna mein. Fyrstir til að prufa punginn var hópur karlmanna sem félagið bauð í morgunkaffi á skrifstofu félagsins. Allir eiga þeir það sameiginlegt að vera í forsvari fyrir karlaklúbba og -félög á svæðinu. Ásamt því að kynnast félaginu fengu þeir tækifæri til þess að spyrja spurninga, bæði varðandi starfsemina og einkenni krabbameina og sköpuðust góðar umræður í hópnum. Starfsmenn óskuðu jafnframt eftir því að gestirnir yrðu vakandi yfir sínum félagsmönnum, vel var tekið í bónina og hafa nokkur félög/klúbbar sýnt áhuga á að þiggja heimsókn frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis fyrir sína félagsmenn.
Í anda Mottumars, þar sem áhersla var lögð á hreyfingu sem forvörn, var Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis með kynningu í stöðvum WorldClass á Akureyri. Haldnir voru sérstakir Hrútatímar, bæði í zumba og spinning, þar sem Mottumarslög voru spiluð við góðar undirtektir. Starfsmenn félagsins gáfu þátttakendum hressingu auk þess að kynna forvarnir og einkenni krabbameina. Vel var tekið á móti okkur og þáðu u.þ.b. hundrað manns hressingu og fræðslu.
Áheitasöfnuninni Aur fyrir Eista lýkur formlega í dag og hafa fjölmörg fyrirtæki heitið á félagið með því að greiða valda upphæð fyrir hvert eista innan fyrirtækisins. Hugmyndin kom upphaflega frá starfsmönnum Fasteignasölu Akureyrar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir uppátækið, en alls safnaðist rétt um hálf milljón króna.
Eitt markmiða félagsins er að í framtíðinni verði aðsókn að þjónustu jöfn meðal kynjanna, enda greinast jafmargar konur og karlar á ári hverju. Fram að þessu hafa konur verið í meirihuta þeirra sem leita til félagsins, en það er ánægjulegt að segja frá því að það sem af er ári merkja starfsmenn töluverða fjölgun karlmanna. Það er ljóst að árveknisátak eins og Hrúturinn skilar sér vel út í samfélagið og það gleður hversu vel bæjarbúar og nærsveitungar hafa tekið á móti félaginu. Stefnan er sett á enn betri dagskrá að ári og við hvergi nærri hætt að leita leiða til að nálgast viðfangsefnið á nýstárlegan og áhugaverðan hátt.
Við þökkum öllum þeim frábæru fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu okkur lið í að halda dagskránna og gáfu tíma, varning eða aur í verkefnið. Alls safnaðist rétt um milljón króna í starfsemi Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, sem rennur beint í þjónustu við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, þeim að kostnaðarlausu.
Með góðri kveðju, starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis