Nýtti samkomubannið í að hekla til góðs
Þuríður og vinkonur hennar styrkja félagið um 570.000 kr. sem er afrakstur af sölu á Dömudúllum
Þuríður Árnadóttir sjúkraþjálfari var ein af þeim sem þurfti að loka fyrirtæki sínu, Stíg Endurhæfingu, tímabundið í samkomubanninu síðasta vetur. Hún var nýbúin að læra að hekla og ákvað að nýta tímann til að búa til margnota bómullarskífur. Um þetta leiti greindist æskuvinkona Þuríðar með krabbamein og í framhaldinu varð hugmyndin að Dömudúllunum til:
„Á meðan ég var frá vinnu við að sinna mínum sjúklingum þá var mér oft hugsað til þeirra og sérstaklega þeirra sem voru að berjast við krabbamein. Það hafa nokkrir verið hjá mér síðustu ár og þó nokkuð margir síðasta árið, þá greindust nokkrir mínir sjúklingar síðasta vetur. Þessari hugmynd laust niður í huga mér þar sem ég var að hekla.“
Þuríður fékk í lið með sér góðar vinkonur til að hekla skífurnar, en samtals gerðu þær yfir 200 pakningar. Hún segir að skólasystir sín Sigurrós Anna Gísladóttir hafi verið sérstaklega öflug og heklað um 800 stk, samtakamáttur kvennanna var greinilega ótrúlegur;
„Þessi söfnun er til að styðja við starf Krabbameinsfélagsins á Akureyri þar sem félagið styður vel við þá sem berjast við krabbamein. Ég hef reynt að styðja þá sem eru að berjast við krabbamein af alúð og umhyggju, þegar þeir hafa til mín leitað. Það má koma fram að við erum afskaplega þakklátar öllum þeim konum sem hjálpuðu okkur að hekla dúllur og vil ég nefna sérstaklega Rebekku Gústavsdóttur sem hefur lengi barist við krabbamein. Einnig erum við mjög þakklátar öllum þeim sem keyptu og einnig þeim sem hjálpuðu okkur að selja. Allir voru svo áhugasamir og fannst þetta frábært framtak og svo er þetta svo umhverfisvænt. Við óskum ykkur velfarnaðar í starfinu og vonum að fjármunirnir komi að góðum notum“
Við þökkum Þuríði og vinkonum hennar hjartanlega fyrir þeirra framlag og hrósum þeim fyrir þetta fallega verkefni.
Stjórn og starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis