Markþjálfun fyrir einstaklinga sem eru að byggja sig upp eftir krabbameinsmeðferð
Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis býður upp á markþjálfun fyrir einstaklinga sem eru að byggja sig upp eftir krabbameinsmeðferð og vilja styrkja sjálfa sig.
Markþjálfunin er í samstarfi við fyrirtækið Sjálfsrækt en eigendur þess eru Hrafnhildur Reykjalín og Guðrún Arngrímsdóttir. Þær eru báðar markþjálfar með diplómu í jákvæðri sálfræði.
Markþjálfunin fer fram með hnitmiðuðum reglubundnum samtölum sem byggja á trúnaði, heilindum og virðingu.
Markþjálfunin fer fram í húsnæði Sjálfsrækt, Brekkugötu 3.
Þeir sem hafa áhuga geta haft samband við félagið fyrir frekari upplýsingar og skráningu í síma 461-1470 eða sent póst á kaon@krabb.is
Hvað er markþjálfun?
Markþjálfun er fyrir þá sem vilja auka lífsgæði sín, bæta frammistöðu og kalla fram breytingar.
Markþjálfun er uppbyggilegt, hvetjandi og krefjandi samtal þar sem vitundarsköpun leiðir til nýrra lausna og tækifæra og stuðlar að auknum persónulegum vexti. Nútíð og framtíð eru í brennidepli og í stað þess að líta um öxl er horft til stöðunnar í dag og til framtíðarmöguleika. Í markþjálfun færðu stuðning og endurgjöf og aðstoð við að öðlast skýrari framtíðarsýn með því að þekkja og nýta styrkleika þína. Markþjálfi heldur utan um ferlið og nær með beinum tjáskiptum og kraftmiklum spurningum að beina þér að kjarna málsins og ýta þannig undir lærdóm, tileinkun og vöxt. Markþjálfi aðstoðar þig við að virkja sköpunargleðina, stækka þægindarammann, víkka sjóndeildarhringinn og hvetur þig áfram í að ná raunhæfum og árangursríkum markmiðum.
Markþjálfun nýtist þér meðal annars þegar:
· Þú vilt auka lífsgæði þín
· Þú vilt koma auga á tækifærin
· Þú vilt yfirstíga hindranir
· Þig vantar betra jafnvægi
· Þú vilt bæta heilsuna
· Þig vantar aðstoð við að takast á við breytingar
· Þú vilt skýrari framtíðarsýn
· Þú vilt læra að þekkja og nýta hæfileika þína og styrkleika betur
· Þú vilt byggja þig upp