Fjölmennt á málþinginu Karlar og krabbamein
Fullt var út úr dyrum í gær þegar málþingið Karlar og krabbamein var sett í Hofi á Akureyri. Málþingið er hluti af árveknisátakinu Hrúturinn, sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis stendur fyrir í mars ásamt Akureyrarbæ og Krabbameinsfélagi Íslands. Markmið átaksins er að vekja athygli karla á forvörnum gegn krabbameini, einkennum þeirra og þeim stuðningi sem félagið veitir við greiningu.
Við komuna í Hof bauðst gestum að þreifa á gervipung í leit að meinum, fræðast um Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, auk þess sem JMJ herrafataverslun stóð fyrir sölu á svokölluðum Hrútaklútum til styrktar málstaðnum. Karlakór Eyjafjarðar mætti prúðbúinn og tók nokkur lög fyrir gesti áður en málþingið var sett.
Dagskrá málþingsins var fjölbreytt og áhersla lögð á að nálgast viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum. Ásthildur Sturludóttir, bæjarsjóri Akureyrar, flutti opnunarávarp þar sem hún lýsti ánægju sinni með átakið og mikilvægi þess að huga að eigin heilsu og að fylgja því eftir verði einkenna vart. Í framhaldinu fór Sólmundur Hólm með gamanmál, en hann greindist sjálfur með Hodkins eitilfrumukrabbamein árið 2017 og fór yfir þá reynslu með gamansömum hætti. Guðmundur Otti Einarsson, sérfræðingur í almennum lyflækningum og meltingarfæra- og lifrarsjúkdómum, fjallaði um illkynja æxli í ristli. Hann fór vel yfir áhættuþætti og einkenni sjúkdómsins ásamt því að gera ferlinu við greiningu góð skil.
Lífsfylling og gildi vináttunnar var viðfangsefni Þorgnýs Dýrfjörð, heimspekings, sem fjallaði einnig um dyggðir og mikilvægi þess að vera til staðar þegar vinur veikist. Birkir Baldvinsson hélt erindið, Smá ves - ég er með krabba, þar sem hann fór yfir þá reynslu að greinast með eitilfrumukrabbamein og þá leið sem hann fór í að ná upp fyrra þreki og þoli eftir meðferð. Fulltrúi Krabbameinsfélags Íslands og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum, Sigrún Elva Einarsdóttir, hélt kynningu á nýju ákvörðunartæki inn á karlaklefinn.is og hreyfingu sem forvörn gegn krabbameinum. Sólmundur Hólm endaði kvöldið með nokkrum eftirhermum og kitlaði hláturtaugar gesta.
Málþinginu var stýrt af Friðbirni Reyni Sigurðssyni, lyf- og krabbameinslækni. Þetta er í annað sinn sem að málþingið er haldið og óhætt að segja að það hafi fest sig í sessi. Meðbyr bæjarbúa með átakinu er mikill, en alls sóttu um 200 manns málþingið og eru þá ótaldir þeir sem sækja aðra viðburði í tengslum við Hrútinn.
Starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í dagskránni, mælendum á málþinginu, sjálfboðaliðum, styrktaraðilum, samstarfsaðilum og öðrum gestum. Sjáumst að ári!