Kveðja frá starfsfólki
Starfsemi Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis hefur, líkt og landsmenn allir, þurft að aðlagast breyttum aðstæðum í samfélaginu. Við finnum að það er fátt sem kemur í stað þess að hitta fólk í persónu, heilsast með handabandi og faðmast. En nýjar áskoranir kalla á nýjar leiðir og höfum við hvatt skjólstæðinga okkar til þess að leita til okkar símleiðis, fylgjast með fræðslu á vegum félagsins á samfélagsmiðlum og nýta sér það veganesti sem félagið hefur kynnt á námskeiðum.
Það er búið að vera ánægjulegt að heyra frá skjólstæðingum okkar og hafa samskiptin einkennst af jákvæðni og æðruleysi þeirra. Við dáumst að því hve duglegt fólk er að nýta styrkleika sína til að sinna daglegu lífi og að í þessum erfiðum aðstæðum sé þakklæti þeim efst í huga.
En málefnið spyr ekki að breyttum tímum og það er eðlilegt að krabbameinsgreindir séu uggandi yfir sínum hag. Þó að skjólstæðingar okkar eigi ekki heimangengt þá erum við til staðar og höldum áfram að þjónusta og leiðbeina símleiðis í s: 461-1470, auk þess sem við tökum við fyrirspurnum í gegnum netfangið kaon@krabb.is.
Opnunartími um páska: við erum við símann mánudaginn 6. apríl og þriðjudaginn 7. apríl frá klukkan 10:00-16:00, opnum aftur fyrir símann þriðjudaginn 14. apríl á hefðbundnum opnunartíma.
Með von um að þið verðið áfram dugleg að heyra í okkur, óskum við ykkur gleðilegra páska, starfsfólk Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.