Dekurdagar slá met í söfnun

Marta Kristín tekur við styrknum frá Vilborgu í Centro (t.h.) og Ingu í Pedromyndum (t.v.) Mynd af s…
Marta Kristín tekur við styrknum frá Vilborgu í Centro (t.h.) og Ingu í Pedromyndum (t.v.) Mynd af síðu Dekurdaga.

Bleikur október haldin hátíðlegur á Akureyri
Októbermánuður er tileinkaður konum sem greinst hafa með krabbamein, bleikur litur er nýttur til þess að minna á málefnið og sýna konunum samstöðu og stuðning. Hér á Akureyri hafa verslunareigendurnir Vilborg í Centro og Inga í Pedromyndum einnig staðið fyrir Dekurdögum síðastliðin 12 ár í október. Bæjarbúar og nærsveitungar eru þá hvattir til þess að hittast, njóta góðra tilboða í verslunum í bænum og gera sér dagamun í skammdeginu. Samhliða hafa þær stöllur boðið verslunareigendum og bæjarbúum að kaupa bleikar slaufur til að skreyta fyrirtæki og húsnæði og rennur allur ágóði af þeirri sölu til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Að auki hefur Centro selt hálsklúta til styrktar málefninu og í ár gáfu Ragnar Hólm myndlistamaður og Pedromyndir, málverk og myndavél í söfnunina.

Dekurdagar slá met í söfnun
Það er óhætt að segja að í ár hafi skapast sérstaklega góð samstaða í samfélaginu og fundu starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis vel fyrir umhyggju bæjarbúa og áhuga á málefnum félagsins í tengslum við Dekurdaga. Í fyrsta skipti rötuðu bleiku slaufur Dekurdaga t.d. á Dalvík, Siglufjörð, Grenivík og inn í Eyjafjörð þar sem Lionsklúbburinn Sif sá um að selja og hengja upp slaufurnar á póstkassa í sveitinni.

Vegna aðstæðna í samfélaginu stóðu ekki vonir til þess að söfnun Dekurdaga næði sömu hæðum og undanfarin ár, en í fyrra söfnuðust ríflega 3.000.000 kr til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Það kom því framkvæmdastjóra félagsins í opna skjöldu að taka á móti 4.200.000 frá þeim Vilborgu og Ingu nú á dögunum: 

Upphæðin sem safnaðist í ár fór langt fram úr okkar björtustu vonum og þakklæti er mér efst í huga. Það er nauðsynlegt fyrir félag eins og okkur að eiga sterkt bakland og Dekurdagar hafa verið okkar stærsti Bakhjarl hér fyrir norðan. Það er mikilvægt fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra að búa að stuðningi og þjónustu í heimabyggð og Dekurdagar aðstoða við að gera það að veruleika“ segir Marta Kristín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins. 

Icelandair Hotel Akureyri leggur sitt af mörkum
Það hefur skapast hefð fyrir því að vera með uppskeruhátíð á Icelandair Hótel Akureyri í lok október, en vegna aðstæðna í samfélaginu var horfið frá þeim plönum í ár. Sigrún Hulda Sigmundsdóttir, hótelstýra á Icelandair Hótel Akureyri, afhenti félaginu í gær  styrk að upphæð 207.000 kr sem safnaðist á hótelinu í október. Við þökkum henni hjartanlega fyrir þeirra framlag og hlökkum til að eiga glaða stund saman að ári.

Stjórn og starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis þakka bæjarbúum, nærsveitungum, fyrirtækjaeigendum og öllum öðrum hlutaðeigandi hjartanlega fyrir þeirra framlag á Dekurdögum. Vilborgu, Ingu og þeirra fólki sendum við okkar innilegustu þakkir fyrir þá elju og dugnað sem þau sýna á ári hverju í verki og velvild.