Ársuppgjör Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis

Ársuppgjör Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, KAON, 2016

Í haust hættu þær Jóhanna Júlíusdóttir og Þorbjörg Ingvadóttir eftir margra ára starf hjá félaginu. Við þökkum þeim fyrir óeigingjarnt og gott starf. Við tóku þær Halldóra Björg Sævarsdóttir (Dóra) og Katrín Ösp Jónsdóttir. 

Fyrsta verk Dóru eftir sumarfrí var að skipuleggja Reykjavíkurmaraþonið ásamt hinum ýmsu verkefnum á skrifstofunni. Katrín hóf störf í september og það fyrsta sem þær Dóra gerðu saman var að fara suður til Reykjavíkur á Ráðstefnu Brjóstaheilla. Þar fengu þær heilmikinn innblástur og byrjuðu að sjá fyrir sér hvernig starf þær vildu vinna á Akureyri og hvernig húsnæðið ætti að vera. Þegar norður var komið var byrjað á því að stokka upp öllum húsgögnum og breyta aðstöðunni til þess að geta boðið skjólstæðingum félagsins sem besta þjónustu. En hverjir eru skjólstæðingar félagsins? Krabbamein er samheiti yfir mjög marga sjúkdóma. Sjúkdóma sem einn af hverjum þrem fá á lífsleiðinni. Þessir einstaklingar eiga ættingja og vini sem verða fyrir áhrifum sjúkdómins. Með þessari hugsun sáu þær fyrir sér að KAON skyldi opna hjartað upp á gátt og taka vel á móti öllum þeim sem hefðu á einn eða annan hátt orðið fyrir áhrifum af völdum krabbameins. En hvernig má ná til allra þessara einstaklinga? Hver er þjónustuþörfin? Dóra og Katrín vildu ná til heilbrigðistarfsmanna til að fá þá til að beina fólki til Krabbameinsfélagsins. Það var því ákveðið að vera með fræðslu tvisvar á ári fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Kynheilbrigðisvandi (kynlífs- og frjósemsisvandi) er með algengsustu aukaverkunum þess að greinast með krabbamein og vegna meðferðanna við sjúkdómnum. Því fannst þeim tilvalið að fá Áslaugu Kristjánsdóttur kynfræðing til að koma og vera með fræðslu um kynheilbrigðisvanda fyrir heilbrigðisstarfsfólk. KAON sendi boð á Sjúkrahúsið á Akureyri, Kristnesspítala, Öldrunarheimilin, Heilsugæslu Akureyrar, Eflingu og Bjarg þar sem fagaðilum var boðið á þessa fræðslu þeim að kostnaðarlausu. Það var ágætis mæting en þær Dóra og Katrín hefðu viljað sjá enn fleiri sýna þessu áhugaverða málefni og flotta fyrirlesara meiri áhuga. Katrín stefnir á að vera með fræðslu fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra um kynheilbrigði á nýju ári.

Október var viðburðarríkur mánuður þar sem margir komu til félagsins og vildu láta gott af sér leiða. Akureyrarbær var umvafinn bleikum kærleika þar sem bleikar slaufur prýddu staura, fyrirtæki bæjarins voru með hina ýmsu viðburði og bæði einstaklingar og fyrirtæki lögðu kapp við að safna fé fyrir félagið. Það er virkilega ómetanlegt að finna fyrir hlýhug bæjarbúa til Krabbameinsfélagsins því án þessarra styrkja væri fátt hægt að gera. Það var farið í bleika göngu um hverfið og endað á vegulegu kaffiboði sem bakarí bæjarins gáfu félaginu. Það mættu svo margir að húsnæðið var varla að geta tekið á móti öllum þessum fjölda. Blóðbankinn og KAON vöktu saman athygli á því að konur geta einnig gefið blóð. Oft er fólk að leita sér að einhverju sem það getur gert fyrir sjúkrahúsið og er blóðgjöf mjög vel þegin.

Það eru margar aukaverkanir og tilfinningar sem fylgja því að greinast með krabbameini og það er hlutverk KAON að aðstoða fólk við að takast á við þær. Þórdís Úlfarsdóttir og Hulda Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfarar frá Bjargi voru með fyrirlestur og sýnikennslu um sogæðabjúg og sjálfsnudd. Anna Lóa Ólafsdóttir var með flottann fyrirlestur um sorg og áföll. Í nóvember var boðið upp á jólakransagerð fyrir börn og ungmenni sem hafa greinst með krabbamein eða eiga nákominn ættingja sem greinst hefur með krabbamein. Mæting fór fram úr öllum væntingum og mikill jólakærleikur var í loftinu.

Á fimmtudögum er opið hús þar sem hópur kvenna mæta í kósý saumaklúbbsstemmingu. Dóra er þeim innan handar ef einhverjum vantar leiðsögn eða hugmyndir af hinni ýmsu handavinnugerð. Á laugardögum hittist hópur karlmanna sem greinst hafa með krabbamein. Á þriðjudögum er slökun með Sigrúnu sjúkraþjálfara auk þess sem hún er með vatnsleikfimi á mánudögum og fimmtudögum. Keramikloftið er með samveru á miðvikudögum þar sem fólk getur komið og unnið að handverki undir leiðsögn eða bara til þess að njóta samverunnar.

Nú í lok janúar fer af stað námskeið fyrir einstaklinga sem nýlega hafa greinst með krabbamein þar sem m.a. verður farið í hvað krabbamein sé, mikilvægi næringar, réttindamál og endurhæfingu. Það verður farið af stað með hóp fyrir ekkjur og ekkla sem Dóra og Katrín sjá um ásamt þeim Hildi Eir Bolladóttur prest, Regínu Ólafsdóttur sálfræðing og Hólmfríði Kristjánsdóttur hjúkrunarfræðing á Lyflækningadeild en hún missti eiginmann sinn, Unnar Þór Lárusson árið 2010.

Hinn árlegi MottuMars kemur með vorið til okkar. Anna Lóa Ólafsdóttir mun vera með fyrirlestur um hamingjuna og Sigríður Ólafsdóttir ACC markþjálfi kemur með fyrirlestur um innsæji, núvitund og markþjálfun. Ósk Jórunn sjúkraþjálfari hjá Heilsugæslunni mun vera með kynningu á hreyfiseðlinum og Virk starfsendurhæfingarsjóður mun kynna sína starfsemi. Einnig verður farið af stað með leshópa á þriðjudögum. Það er því ýmislegt framundan hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis og án efa munu fleiri spennandi viðburðir bætast við.

 

Með kærri nýárskveðju og þökkum til allra sem hafa lagt starfinu lið með einum eða öðrum hætti.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis

www.kaon.is